Samþykkt þann 11. janúar, 2026

I.kafli. Heiti félags, heimili og hlutverk 

1. gr. Félagið heitir Stúdentafélag Háskólans í Reykjavík (hér eftir “félagið” eða “SFHR”) , á ensku The Student Association of Reykjavik University. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Starfstími stjórnar SFHR og reikningsár skal vera á milli aðalfunda.

2. gr. Hlutverk Stúdentafélagsins er að standa vörð um hagsmuni stúdenta við Háskólann í Reykjavík, auka einingu meðal félagsmanna og stuðla að upplýstri akademískri umræðu meðal félagsmanna. 

II. kafli. Aðild að félaginu 
3. gr.  Allir þeir er stunda nám við Háskólann í Reykjavík njóta aðildar að félaginu.

III. kafli. Aðalfundur   

4. gr. Aðalfundur  hefur  æðsta  vald  í  málefnum  félagsins.  Aðalfund  Stúdentafélags Háskólans  í  Reykjavík  skal  halda  í  lok vorannar  ár  hvert.  Til  hans  skal  boðað  með  löglegum hætti,  hið  minnsta  tveimur  vikum  fyrir  áætlaðan  fundardag  ella  telst  hann ólögmætur og skal dagskrá fundarins fylgja  fundarboði. Allir félagsmenn Stúdentafélagsins eiga rétt á að sækja aðalfund. Forseti  setur  fundinn  og skipar  fundarstjóra  sem  stýrir  umræðum.  Á  aðalfundi  skulu fylgja fundarsköp sem stjórn  hefur  samþykkt.  Til  þess  að  tillaga  á  aðalfundi  hljóti  samþykki  þarf  samþykki
meirihluta  fundarmanna,  slíkt  á  þó  ekki  við  um  tillögur  um  breytingu  á  lögum félagsins  sem  fara  eftir  þessum  lögum.  Tillögur  um  efni  sem  er  ekki  á  fundarboði skulu  ekki  teknar  til  afgreiðslu  nema  2/3  hluti  fundarmanna  hafi  samþykkt  afgreiðslu slíkrar tillögu. Á aðalfundi skulu kosnir 2 skoðunarmenn til þess að endurskoða reikninga félagsins. Skal slíkri endurskoðun lokið eigi síðar en 3 dögum eftir aðalfund. Skulu skoðunarmenn gera grein fyrir störfum sínum á aðalfundi undir liðnum ,,Fjármálastjóri skilar skýrslu um fjármál ársins.” 

5. gr.  Fráfarandi varaforseti skrifar fundargerð aðalfundar.
Dagskrá aðalfundar er eftirfarandi:
i.  Kjör fundarstjóra.
ii. Forseti Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík fer yfir starf ársins.
iii. Fjármálastjóri skilar skýrslu um fjármál ársins.
iv. Lagabreytingar.
v.  Skýrsla kjörstjórnar um niðurstöður kosninga.
vi. Stjórnarskipti.
vii. Önnur mál.

IV. kafli. Stjórn

6. gr. Stjórn félagsins
Stjórn Stúdentafélagsins (hér eftir “stjórn”) skal skipuð sjö nemendum við Háskólann í Reykjavík. Stjórn félagsins skipa forseti, varaforseti, fjármálastjóri, samskiptastjóri, hagsmuna- og gæðastjóri, markaðsstjóri og nefndarsviðsstjóri.

 7. gr. Forseti
Forseti Stúdentafélagsins er formaður stjórnar Stúdentafélagsins, stjórnar fundum og kemur fram fyrir hönd Stúdentafélagsins í samskiptum við aðila innan sem utan Háskólans í Reykjavík. Forseti hefur yfirumsjón með starfsemi á vegum félagsins og ber hann endanlega ábyrgð á málefnum þess. Forseti situr í framkvæmdastjórn Háskólans í Reykjavík og situr fundi Háskólaráðs. Að auki situr hann í fulltrúaráði Stúdentafélagsins ásamt varaforseta. Forseti er einnig fulltrúi félagsins í fulltrúastjórn Landsamtaka íslenskra stúdenta í að minnsta kosti eitt ár en getur kosið að sitja í tvö ár. Forseti fer með prókúru og ritar firma fyrir hönd félagsins. Forseti ber ábyrgð á gerð ársskýrslu sem skal leggja fram á aðalfundi ár hvert og birta á heimasíðu félagsins. Í fjarveru forseta sinnir varaforseti þessum störfum. Forseti hefur umsjón yfir fjármálum félagsins ásamt fjármálastjóra.

8. gr. Varaforseti
Varaforseti skal rita fundargerðir stjórnarfunda og sjá til þess að fundargerðir séu samþykktar af stjórn Stúdentafélagsins. Varaforseti er formaður  alþjóðanefndar Stúdentafélagsins og er því tengiliður stjórnar við erlenda nemendur sem stund nám við skólann sem og Alþjóðaskrifstofu skólans. Þar að auki sér varaforseti um helstu samskipti við fulltrúaráð Stúdentafélagsins. Í fjarveru forseta stjórnar varaforseti fundum stjórnar og kemur fram fyrir hönd Stúdentafélagsins í samskiptum við aðila innan sem utan Háskólans í Reykjavík. Ákveði fyrrum forseti að sitja einungis í eitt ár sem fulltrúi félagsins í fulltrúastjórn Landsamtaka íslenskra stúdenta ber varaforseta að sitja í hans stað eða finna annan fulltrúa.

9. gr. Fjármálastjóri
Fjármálastjóri hefur einn umsjón með fjárráðum félagsins. Fjármálastjóri útbýr fjárhagsáætlun Stúdentafélagsins og leggur hana fyrir stjórn til samþykktar fyrir lok september mánaðar. Ársuppgjör skal vera aðgengilegt félagsmönnum þremur dögum fyrir aðalfund hið minnsta. Fjármálastjóri hefur prókúruumboð.

10. gr. Hagsmuna- og gæðastjóri
Hagsmuna- og gæðastjóri skal vinna að hagsmunamálum nemenda, ásamt gæðamálum náms við Háskólann í Reykjavík og hafa frumkvæði af úrbótum hverju sinni, hvort sem það er í samvinnu við kennslusvið eða einstaka deild innan háskólans. Þá skal hagsmuna- og gæðastjóri vera öllum nemendum háskólans innan handar sem og hagsmunafulltrúum aðildarfélaganna.   Auk þess er hann tengiliður stjórnar við menntasjóðsfulltrúa félagsins sem situr í stjórn Menntasjóðs námsmanna (hér eftir “MSNM“).   Hagsmuna- og gæðastjóri ber þar að auki ábyrgð á endurskoðun laga Stúdentafélagsins þegar þörf er á. Hagsmuna- og gæðastjóri situr í siðanefnd Háskólans í Reykjavík.

11. gr. Samskiptastjóri
Samskiptastjóri ber ábyrgð á og hefur yfirumsjón með öllum útgáfumálum félagsins. Samskiptastjóri hefur umsjón yfir svörun aðsendra bréfa, heimasíðu félagsins ogöllum samfélagsmiðlum félagsins. Samskiptastjóri skal vinna náið með upplýsingafulltrúum nemendafélaganna til þess að tryggja gott upplýsingaflæði  svo  hægt sé að upplýsa nemendur sem best hverju sinni.

12. gr. Markaðsstjóri
Markaðsstjóri skal sjá til þess að samningum og samstörfum við önnur fyrirtæki sé fylgt eftir, bæði af hálfu SFHR og fyrirtækjanna. Markaðsstjóri skal vera í skilvirkum samskiptum við samstarfsaðila. Markaðsstjóri hefur auk þess umsjón með framleiðslu nemendaskírteina í byrjun skólaárs og hefur samband við fyrirtæki til þess að safna nemendaafsláttum. Markaðsstjóri vinnur í nánu sambandi með fjármálastjóra varðandi skipulag. Markaðsstjóri er formaður markaðsnefndar SFHR.

13. gr. Nefndarsviðsstjóri
Nefndarsviðsstjóri hefur það hlutverk að hafa yfirumsjón yfir þeim nefndum sem starfa innan SFHR hverju sinni og sjá til þess að þær séu virkar í starfi og starfi undir gildum SFHR. Nefndir eru auglýstar í byrjun haustannar. Ef nefndir eru ekki fullmannaðar sér nefndarsviðsstjóri um að auglýsa lausar stöður í byrjun skólaárs og tekur viðtal við umsækjendur í samráði við þá sem sitja í nefndum. Nefndarsviðsstjóri sér um að halda skipulagi á starfsemi nefndanna og upplýsa stjórn SFHR reglulega um gang mála í starfsemi þeirra. Nefndarsviðsstjóri aðstoðar nefndir við að halda viðburði og safna styrkjum. 

14. gr. Fulltrúi erlendra nemenda
Fulltrúi erlendra nemenda er tengiliður SFHRvið erlenda nemendur og skiptinema við Háskólann í Reykjavík. Fulltrúinn er tilnefndur af varaforseta og skipaður af stjórn eftir viðtöl. Varaforseti skal leitast eftir því að staðan sé mönnuð á bæði haust- og vorönn. Fulltrúi erlendra nema skal sitja í alþjóðanefnd SFHR.

15. gr. Aðrir fulltrúar
Stjórn er heimilt að skipa aðra fulltrúa til að starfa sem sérfræðingar í ákveðnum málaflokkum. Stjórn skal útfæra hlutverk, skyldur, réttindi og þóknanir þessara fulltrúa nánar með reglugerðum. 

16. gr. Til að stjórnarfundur sé ályktunarbær þarf meirihluti stjórnar að vera viðstaddur. Til þess að ákvarðanir stjórnar séu bindandi og lögmætar þarf meirihluta samþykki ályktunarbærs stjórnarfundar að vera til staðar og skal sérstakt tillit tekið til skoðunar forseta SFHR.

17. gr. Stjórn stúdentafélagsins skal skipa einn stjórnarmeðlim í námsráð Háskólans í Reykjavík. Viðkomandi skal hins vegar ekki vera forseti félagsins.

18. gr. Vilji stjórnarmaður víkja sæti skal hann tilkynna stjórn SFHR það skriflega a.m.k. tveimur vikum áður en hann hyggst víkja sæti. Skal viðkomandi nýta þessar tvær vikur til þess að ganga frá þeim málum sem viðkoma SFHR og hann hefur með höndum.

19. gr. Ef ⅔ hlutar stjórnar Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík samþykkir að víkja öðrum stjórnarmanni úr sæti Stúdentafélagsins, gildir sú ákvörðun að fyrir liggi góð og málefnaleg ástæða, svo sem ef stjórnarmaður sinnir ekki störfum sínum eða svarar ekki erindum stjórnar til lengri tíma. Stjórnarmaður sem víkur sæti skal ganga frá sínum málum í samræmi við ákvæði 18. gr. Stjórnarmaður sá sem vantrausttillögu er beint að skal ekki hafa kosningarétt þegar kosið er um áframhaldandi störf stjórnarmannsins sem kosið er um. Stjórn skal hafa samráð við Rektor og lögfræðing skólans og geta leitað til þeirra til þess að útkljá málið.

20. gr. Komi til þess að stjórnarmaður víki sæti skal stjórn skipa annan í hans stað eigi síðar en tveimur vikum síðar. Auglýst skal tryggilega meðal félagsmanna SFHR eftir áhugasömum aðilum til að taka þátt í starfi stjórnar, eigi síðar en viku eftir að stjórnarmaður víkur sæti, og skal stjórn skipa einn af þeim aðilum sem lýsa áhuga sínum til að starfa í stjórn SFHR. 

21. gr. Ef ⅔ hlutar stjórnar aðildarfélags lýsir vantrausti á annan stjórnarmeðlim innan sama félags skal fyrst hafa samband við forseta og hagsmuna- og gæðastjóra og boða þau á fund. Fulltrúar SFHR munu stýra fundi í framhaldi af því máli. Vantrausti skal fylgja góð og málefnaleg ástæða. Stjórnarmaður sem víkur sæti skal ganga frá sínum málum í samræmi við ákvæði 18. gr.

22. gr. Forseti SFHR, í samráði við stjórnina, skal skipa einn nýjan stjórnarmeðlim Byggingarfélags námsmanna (hér eftir “BN”) að minnsta kosti 2 vikum fyrir aðalfund BN. Sá aðili þarf ekki að vera stjórnarmeðlimur SFHR. Stjórnarseta skal vera í tvö ár. Þeir tveir aðilar sem gegna hlutverki varafulltrúa BN skulu vera stjórnameðlimir úr SFHR. 

V. kafli. Félagsfundur

23. gr. Stjórn félagsins getur boðað til almenns félagsfundar til að ræða málefni félagsins.  Forseti félagsins setur fundinn og tilnefnir fundarstjóra sem stýrir umræðum. Framlögð tillaga á félagsfundi hlýtur samþykki ef 2/3 hlutar fundarmanna greiða henni atkvæði sitt. Allir félagsmenn Stúdentafélagsins eiga rétt á að sækja félagsfundi.Félagsmenn Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík geta krafist almenns félagsfundar, til að ræða málefni er varða Stúdentafélagið, með skriflegri beiðni, þar sem fram kemur efni og ástæða fundarins, og undirskrift 10% félagsmanna hið minnsta. Stjórn Stúdentafélagsins er skylt að halda slíkan fund innan tveggja vikna frá framlagningu beiðninnar. Boða skal til fundarins með viku fyrirvara hið minnsta með tryggilegum hætti, t.d. með tölvupósti, þar sem efni fundarins er tilgreint. Dagskrá fundarins skal fylgja fundarboði. Ekki er heimilt að taka fyrir önnur mál á félagsfundi, en þau er koma fram í fundarboði, nema allir viðstaddir stjórnameðlimir samþykki að taka málið fyrir.

VI. kafli. Aðildarfélög 

24. gr. Félag nemenda skal starfa innan hverrar akademískar deildar Háskólans í Reykjavík og skulu þau félög njóta aðildar að SFHR. Nemendum annarra deilda er heimilt að stofna sambærileg félög.

25. gr. Aðildarfélög skulu sinna hagsmunagæslu fyrir alla nemendur innan sinnar deildar. Félögin skulu vinna að bættu félagslífi og sterkri hagsmunabaráttu innan sinnar deildar.

26. gr. Í því tilfelli að lög eða siðareglur aðildarfélaga skarist á við lög eða siðareglur SFHR gilda þau síðarnefndu.

27. gr. Allar lagabreytingar sem varða aðildarfélög SFHR skulu vera tekin til umræðu á fundi fulltrúaráðs SFHR fyrir aðal- eða lagabreytingafund.

28. gr. Stjórn SFHR eða einstakir stjórnarmeðlimir geta lagt fram reglugerðir eða verklags- og starfsreglur sem varða aðildarfélög skarist þær ekki við lög SFHR og séu þær samþykktar af meirihluta fulltrúaráðs. 

29. gr. Aðildarfélög skulu starfa eftir gildum SFHR.

30. gr. Aðildarfélög skulu skila ársreikningi til fjármálastjóra SFHR eigi síðar en viku fyrir aðalfund SFHR.

31. gr. Aðildarfélög SFHR skulu halda aðalfund. Eftir aðalfund skulu aðildarfélög skila aðalfundargerð, félagsmannaskrá, lögum, upplýsingum um breytingar á stjórn og ársskýrslu til SFHR. Stjórn SFHR er heimilt að senda áheyrnarfulltrúa á aðalfundi aðildarfélaga.

VII. kafli. Fulltrúaráð  

32. gr.  Fulltrúaráð Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík skipa; formaður Atlas, formaður Lögréttu, formaður Markaðsráðs, formaður Pragma, formaður Mentes, formaður Technis og formaður Tvíundar.

33. gr.  Hlutverk fulltrúaráðs SFHR er að auka einingu á milli deilda Háskólans í Reykjavík og vera stjórn SFHR innan handar við ákvarðanatöku í stærri málum.

34. gr.  Forseti SFHR skal boða til fundar með fulltrúaráði á 14 daga fresti, hið minnsta. Fulltrúaráðsfundur er ályktunarbær um þau málefni sem til umfjöllunar eru á fulltrúaráðsfundi þegar ⅔ þeirra sem sæti eiga í fulltrúaráði eru mættir. Stjórn Stúdentafélagsins ber að hafa ályktanir fulltrúaráðsfundar að leiðarljósi við ákvarðanatöku í daglegri starfsemi.

VIII. kafli. Hagsmunaráð 

35. gr. Hagsmunaráð Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík skipa hagsmunafulltrúar aðildarfélaga SFHR. Hagsmuna- og gæðastjóri SFHR sinnir formennsku og leiðir störf ráðsins. Ef enginn innan stjórnar tiltekins aðildarfélags sinnir hlutverki hagsmunafulltrúa skal stjórn aðildarfélagsins skipa hagsmunafulltrúa í ráðið innan stjórnar sinnar. Sá aðili skal ekki vera formaður aðildarfélagsins, nema í undantekningartilfellum samþykkt af hagsmuna- og gæðastjóra SFHR.

36. gr. Hagsmuna- og gæðastjóra er heimilt að skipa aðra meðlimi í nefndina, á borð við fulltrúa SFHR á sviðum jafnréttis-, menntasjóðs- eða byggingarfélagsmála, fastafulltrúa SFHR í hagsmunaráði, fulltrúa stúdenta í ýmsum stjórnum, ráðum og nefndum, trúnaðarmenn SFHR eða fulltrúa annarra hagsmunasamtaka innan HR.

37. gr. Allir meðlimir skulu rita undir trúnaðaryfirlýsingu á fyrsta fundi þeirra. Hagsmuna- og gæðastjóri SFHR skal rita fundargerðir hagsmunaráðs. Fundargerðir hagsmunaráðs eru trúnaðarmál og eru fundir ráðsins lokaðir.

38. gr.  Hlutverk hagsmunaráðs SFHR er að efla samstarf aðildarfélaga SFHR í hagsmunamálum og vera stjórn SFHR innan handar við ákvarðanatöku í stærri málum. Ráðið hefur umsjón með kennslu- og gæðamálum innan HR, réttindamálum stúdenta, málefnum Menntasjóðs námsmanna og Háskólagarða HR, jafnréttismálum og öðrum hagsmunamálum.

39. gr.  Hagsmuna- og gæðastjóri SFHR boðar til fundar í byrjun skólaárs og getur boðað til fundar eftir þörfum og verkefnum með hagsmunaráði. Fundur hagsmunaráðs er ályktunarbær um þau málefni sem til umfjöllunar eru þegar ⅔ þeirra sem sæti eiga í hagsmunaráði eru mættir. Stjórn Stúdentafélagsins ber að hafa ályktanir fundar hagsmunaráðs að leiðarljósi við ákvarðanatöku í starfsemi sinni.

40. gr. Lagabreytinganefnd skal starfa sem föst undirnefnd hagsmunaráðs. Hagsmuna- og gæðastjóri ásamt stjórn SFHR skal skipa nefndina til þess að sjá um endurskoðun á lögum félagsins fyrir aðalfund ár hvert. Skal nefndin skipuð 2 aðilum í það minnsta. Lagabreytinganefnd starfar í samvinnu við stjórn SFHR og skal skila frumvarpi með greinargerð sem lagt verður fyrir boðaðan aðalfund eða lagabreytingafund. Hagsmuna- og gæðastjóri SFHR situr í nefndinni og ber ábyrgð á samskiptum hennar við stjórn.

IX. kafli. Nefndir 

41. gr. Fastanefndir stjórnar SFHR aðstoða stjórn í störfum sínum og heyra beint undir hana. Nefndarsviðsstjóri hefur yfirumsjón með störfum þeirra. Fjármálastjóri SFHR fer með fjárráð fastanefnda. Fastanefndir stjórnar SFHR eru:

  • Alþjóðanefnd, nefndin vinnur að alþjóðamálum SFHR í samræmi við stefnur stjórnar. Alþjóðafulltrúi SFHR sinnir formennsku og skipar aðila í nefndina.

  • Birta, sjálfbærninefnd. Nefndin vinnur að sjálfbærnimálum og öðrum samfélagslegum málefnum. Nefndin stendur m.a fyrir góðgerðarviku SFHR. Nefndarsviðsstjóri skipar formann og aðra meðlimi nefndarinnar í samræmi við stjórn. 

  • Markaðsnefnd, nefndin vinnur að markaðs- og kynningarmálum í samstarfi við stjórn. Markaðsstjóri sinnir formennsku og skipar í nefndina, samskiptastjóri skal sinna varaformennsku.

  • Ritnefnd, nefndin vinnur að blaðaútgáfum SFHR og skal gefa út Háskólablaðið og Háskólafréttir árlega. Nefndarsviðsstjóri skipar formann nefndar sem er jafnframt ritstjóri. Nefndarsviðsstjóri skipar aðra nefndarfulltrúa í samræmi við stjórn.

  • Sproti, nýsköpunar- og frumkvöðlanefnd. Sproti sér um nýsköpunar- og frumkvöðlamál SFHR. Nefndarsviðsstjóri hefur umsjón með störfum nefndarinnar og skipar aðila í hana. 

  • Viðburðanefnd, nefndin vinnur að viðburðum SFHR í samstarfi við stjórn. Nefndarsviðsstjóri hefur umsjón með störfum nefndarinnar og skipar aðila í hana. 

42. gr. Nefndarsviðsstjóri skal leggja fram reglugerð um nánari lýsingar á hlutverkum,  skyldum og framkvæmdaáætlunum nefnda SFHR, með þeim takmörkunum sem lög þessi setja, fyrir byrjun hvers skólaárs. 

43. gr. Nefndarsviðsstjóra er heimilt að skipa aðrar nefndir með samþykki stjórnar SFHR.

X. kafli. Kosningar 

44. gr.Kosningar í stjórn Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík skulu fara fram fyrir aðalfund sbr. III. kafla. Boða skal til kosninga með a.m.k. þriggja vikna fyrirvara, skal það auglýst með tryggilegum hætti, m.a. með tölvupósti til nemenda, ella teljast kosningarnar ólögmætar. Framboðsfresti lýkur tíu dögum fyrir aðalfund. Kosning skal standa yfir í þrjá sólarhringa. Kosning hefst á hádegi þremur sólarhringum fyrir auglýstan aðalfund og lýkur á hádegi á sama degi og aðalfundur fer fram.

45. gr. Kosningarétt hafa allir félagsmenn SFHR. Kjörgengi hafa allir félagsmenn er hyggja á áframhaldandi nám við skólann. Framboð skulu vera skrifleg og undirrituð eða staðfest í gegnum skólanetfang frambjóðanda. Auglýsa skal eftir framboðum minnst þremur vikum fyrir aðalfund. Framboðsfresti lýkur tíu dögum fyrir aðalfund.

46. gr. Stjórn Stúdentafélagsins skal skipa sjö aðila í kjörstjórn. Leitast skal við að gæta jafnræðis milli aðildarfélaga við skipan kjörstjórnar. Kjörstjórn skal sjálf kjósa sér formann, atkvæði formanns vegur tvöfalt ef atkvæði eru jöfn við afgreiðslu máls innan kjörstjórnar. Þeir sem sæti eiga í kjörstjórn hafa fyrirgert rétti sínum til framboðs í viðkomandi kosningum. Kjörstjórn skal skipuð hið minnsta fjórum vikum fyrir aðalfund. Kjörstjórn skal skipuleggja kosningar og sjá um framkvæmd þeirra í samvinnu við stjórn SFHR. Kjörstjórn skal gæta hlutleysis og er hún bundin þagnarskyldu um framgang kosninga.

47. gr.  Kosningar skulu fara fram með rafrænum hætti og skal kjörstjórn sjá til þess að öllum kröfum um öryggi og skilvirkni sé fullnægt. Kosningar skulu vera leynilegar.

48. gr. Ef frambjóðand er einn í framboði þarf hann ⅔ hluta greiddra atkvæða til að hljóta kosningu. Ef ekki hefur hlotist lögleg kosning í öll embætti, skal auglýsa eftir framboðum í laus embætti ekki síðar en 10 dögum eftir að niðurstöður kosninga liggja fyrir. Skal að öðru leyti fara um framkvæmd kosninganna eftir ákvæðum þessara laga. 

49. gr.  Stjórn Stúdentafélagsins skal skipa þrjá aðila í kærunefnd vegna kosninga og tvo til vara, alls fimm aðila. Skal skipan kærunefndar lokið viku fyrir lok kosninga hið minnsta. Þeir sem sæti eiga í kærunefnd hafa fyrirgert rétti sínum til framboðs í viðkomandi kosningum. Við val á aðilum í kærunefnd skal leitast til við að skipa aðila sem koma úr mismunandi deildum og skal skipa einn aðila sem ekki er nemandi í Háskólanum í Reykjavík. Kærunefndin skal a.m.k. skipuð einum aðila sem lokið hefur grunnnámi í lögfræði. Nefndarmenn skulu gæta hlutleysis og eru bundnir þagnarskyldu um störf nefndarinnar umfram það sem gert hefur verið opinbert. Komi til þess að vafi leikur á hæfi einstakra nefndarmanna skal kærunefnd öll, þ.m.t. varamenn taka ákvörðun um hæfi viðkomandi. Skal nefndin hafa til hliðsjónar hæfisreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við þá ákvörðun.

50. gr. Kærur vegna kosninga skulu berast kærunefnd skriflega eigi síðar en þremur virkum dögum eftir að kosningum lauk. Kærunefnd skal kveða upp úrskurð um efni kæru eigi síðar en viku eftir að kærufrestur rann út. Kærunefnd hefur endanlegt úrskurðarvald um efni kæru.

51. gr. Komist kærunefnd að því að kosning, í heild eða að hluta til, hafi ekki verið framkvæmd samkvæmt ákvæðum laga þessara um framkvæmd kosninga, skal kjörstjórn boða til nýrra kosninga. Skulu framboð sem bárust vegna fyrri kosninga gild í slíkum kosningum. Skal boðað til nýrra kosninga eigi síðar en viku eftir að kærunefnd skilar úrskurði sínum. Að öðru leyti skulu sömu reglur gilda um framkvæmd aukakosninga og aðalkosninga.

52. gr. Ef fjöldi atkvæða er jafnt milli frambjóðenda skal fráfarandi stjórn SFHR boða til nýrra kosninga um það embætti.

XI. kafli. Slit á félaginu 

53. gr.  Komi fram tillaga um að félaginu skuli slitið skal hún þá sæta sömu meðferð og tillaga til lagabreytinga, skv. 54. gr. Eignir félagsins ganga til Háskólans í Reykjavík til varðveislu þegar félaginu er slitið þar til stúdentar stofna annað félag í sama tilgangi sem telst arftaki Stúdentafélagsins og fær því eignir þess.

XII. kafli. Breytingar og gildistaka  

54. gr. Lögum félagsins má breyta á aðalfundi eða sérstaklega boðuðum lagabreytingafundi, boðuðum með 10 daga fyrirvara hið minnsta og þurfa 2/3 hlutar fundarmanna sem sækja fund að greiða atkvæði með lagabreytingunni til að hún verði samþykkt. Stjórn er skylt að boða til lagabreytingarfundar ef 10% félagsmanna óskar þess. Stjórn er heimilt að boða til slíks fundar að eigin frumkvæði. Allir félagsmenn hafa rétt til að koma með tillögur að lagabreytingum. Tillögum til lagabreytinga skal skilað til stjórnar eigi síðar en 7 dögum fyrir boðaðan fund. Tillögur skulu auglýstar á tryggilegan hátt. Í fundarboði skal þess getið sérstaklega að tillaga til lagabreytinga verði tekin til meðferðar á fundinum og skal efni hennar lýst. Heimilt er á aðalfundi eða lagabreytingarfundi að koma með breytingartillögu við löglega framkomna breytingartillögu svo lengi sem tillaga fundarins breytir ekki efni upphaflegu breytingartillögunnar að upplagi, forseti SFHR hefur úrskurðarvald um það hvenær tillaga fundar telst breyta efni upphaflegu breytingartillögunar. Lagabreyting öðlast gildi frá þeim tíma þegar hún er samþykkt á aðalfundi eða öðrum lagabreytingarfundi. Á lagabreytingafundi skal fylgja fundarsköpum sem stjórn SFHR hefur samþykkt.

55. gr.  Lög þessi skulu ávallt vera aðgengileg á heimasíðu SFHR og vera öllum félagsmönnum aðgengileg á þann hátt.

56. gr.  Lög þessi öðlast þegar gildi og falla eldri lög SFHR úr gildi.

XIII.kafli. Hefðir

57. gr. Í byrjun haustannar ber stjórn stúdentafélagsins skylda að halda tiltektar fund. Á þessum tiltektar fundi skal nefndarfulltrúi tryggja að, að minnsta kosti 2 aðilar úr stjórn hvers nemendafélags mæti. Tilgangur fundarins er að laga til á nemendafélags skrifstofunni, skrifstofu stúdentafélagsins og öllum geymslum sem eru í notkun af nemendafélögunum.

58. gr. Í byrjun haustannar ber stjórn stúdentafélagsins skylda að halda tiltektar fund. Á þessum tiltektar fundi skal stjórn SFHR tryggja að, að minnsta kosti 2 aðilar úr stjórn hvers nemendafélags mæti. Tilgangur fundarins er að laga til á nemendafélags skrifstofunni, skrifstofu stúdentafélagsins og öllum geymslum sem eru í notkun af nemendafélögunum.