Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) voru stofnuð 13. nóvember 2013 og eru samtök háskólanema á Íslandi sem og íslenskra háskólanema á erlendri grundu. LÍS eru regnhlífarsamtök en að þeim standa átta aðildarfélög sem eru í forsvari fyrir stúdenta við Háskólann á Akureyri, Háskólann á Bifröst, Háskóla Íslands, Háskólann á Hólum, Háskólann í Reykjavík, Landbúnaðarháskóla Íslands, Listaháskóla Íslands og íslenska stúdenta sem stunda nám erlendis. LÍS er því í forsvari fyrir um rúmlega 20 þúsund íslenska stúdenta.

Samtökin starfa samkvæmt stefnuskrá sem mótuð er árlega á landsþingi samtakanna. Hlutverk samtakanna er að vinna að samræmingu gæðastarfs milli háskóla á Íslandi, standa vörð um hagsmuni stúdenta hérlendis sem og hagsmuni íslenskra stúdenta á alþjóðavettvangi. LÍS getur í umboði allra aðildarfélaga farið með samningsumboð og komið fram fyrir þeirra hönd gagnvart stjórnvöldum, í fjölmiðlum og á opinberum vettvangi.

Framkvæmdastjórn LÍS setti sér það markmið við upphaf stofnunar samtakanna að vanda vel til verka og koma sterkum stoðum undir samtökin þannig þau geti starfað til frambúðar. Þeir lykilþættir sem samtökin leggja áherslu á eru; samþykktir félagsins, fjármál þeirra og hvernig markaðs- og kynningarmálum er háttað, t.d. á heimasíðu samtakanna www.haskolanemar.is og á Facebook. Auk þessarra mikilvægu þátta halda samtökin utan um fleiri verkefni, m.a. þátttöku stúdenta í gæðaúttektum á námi í háskólum landsins, alþjóðastarf íslenskra stúdenta og skipun fulltrúa námsmanna í ýmsar nefndir og ráð til stjórnvalda sem hafa með háskólamenntun að gera.

Innan LÍS er starfrækt þriggja fulltrúa alþjóðanefnd sem sér um alþjóðastarfið. Helsta verkefni alþjóðanefndarinnar er þátttaka íslenskra stúdenta í starfi ESU, European Student Union. Þátttaka í starfi ESU krefst þess að fulltrúar séu sendir á þing sem haldin eru í hinum ýmsum evrópulöndum.