| Lögrétta, félag laganema við Háskólann í Reykjavík hefur það meginhlutverk að gæta hagsmuna og velferðar laganema, auk þess að vera tengiliður milli nemenda og stjórnenda lagadeildarinnar. Stjórnin er tengiliður milli nemenda og stjórnenda lagadeildar Háskólans í Reykjavík og stuðlar að stöðugri framþróun lagadeildarinnar.Markmið félagsins er þar að auki að efla fræðilegt starf á sviði lögfræði, jafnt innan deildarinnar og utan, en einnig sér félagið til þess að skólaárið sé bæði skemmtilegt og minnisstætt.Félagið starfar í gegnum fjórar undirnefndir: Málfundafélagið, Skemmtinefnd, Tímarit Lögréttu og Lögfræðiþjónustu Lögréttu.
Málfundafélagið skapar vettvang fyrir umræður um lögfræðileg álitaefni og þjálfar nemendur í rökfimi og mælskulist. Þar eru haldnir opnir málfundir um lagaleg málefni sem eru ofarlega á baugi hverju sinni.
Skemmtinefndin heldur utan um félagslífið, skipuleggur fjölbreytta viðburði og tryggir að laganemar fái andrými frá bókunum. Má þar helst nefna nýnemakvöld og reglulegar vísindaferðir til lögmannsstofa, fyrirtækja og stofnana.
Tímarit Lögréttu er fræðilegt ritrýnt tímarit þar sem birtar eru greinar á sviði lögfræði. Það er ætlað bæði fræðimönnum og nemendum, en einnig almenningi með umfjöllun um brýn samfélagsleg álitaefni. Einnig birtir það styttri greinar sem tengjast lögfræðilegum málefnum líðandi stundar, til dæmis um nýja dóma, lagafrumvörp eða álitaefni.
Lögfræðiþjónusta Lögréttu er vettvangur þar sem laganemar á þriðja, fjórða og fimmta námsári bjóða almenningi upp á ókeypis lögfræðiráðgjöf og öðlast þannig dýrmæta reynslu í faginu. |
 |