Kjörstjórn Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík boðar til kosninga 8. – 11. mars 2016 í stjórnir eftirfarandi nemendafélaga:

  •  Stúdentafélag Háskólans í Reykjavík.
  • Atlas, félag íþróttafræðinema við Háskólann í Reykjavík.
  • Markaðsráð, félag viðskiptafræðinema við Háskólann í Reykjavík.
  • Mentes, félag sálfræðinema við Háskólann í Reykjavík.
  • Pragma, félag tækni- og verkfræðinema við Háskólann í Reykjavík.
  • Tvíund, félag tölvunarfræðinema við Háskólann í Reykjavík.

Einnig er kosið í stjórn Háskólablaðsins.

Sérstök athygli er vakin á því að ekki er verið að boða til kosninga í stjórn Lögréttu, þær kosningar eru boðaðar sérstaklega af kjörstjórn Lögréttu.

Tekið verður við framboðum frá og með 12. febrúar og er frestur til framboðs í embætti á vegum Stúdentafélags HR og aðildarfélaga þess til kl. 23:59 sunnudaginn 6. mars 2016. Kosið verður í MySchool kennslukerfinu frá kl.12:00 þriðjudaginn 8. mars til kl. föstudaginn 11. mars. Úrslit verða kynnt í kosningapartýi að kvöldi 11. mars, sem auglýst verður síðar.

Eftirfarandi skilyrði gilda um framboð:

  • Senda skal framboðstilkynningu með tölvupósti á netfangið „kjorsfhr@ru.is“setja skal Framboð 2016 og viðeigandi félag í viðfangsefni (e. subject)
  • Frambjóðandi skal taka það skýrt fram hvaða embætti hann býður sig fram í og í hvaða nemendafélagi.
  • Fram þarf að koma fullt nafn frambjóðanda, aldur, námsbraut og námsgráðu sem frambjóðandi leggur stund á, ásamt stuttri kynningu á framboðinu (50-100 orð).
  • Passamynd (eða sambærilega góð andlitsmynd) af frambjóðanda er skilyrði, og skal fylgja í viðhengi með tölvupósti.
  • Allar þær upplýsingar sem beðið er um hér að framan eru birtar á kosningavef á heimasíðu Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík og/eða á Facebook-síðu Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík þegar að framboðsfresti lýkur. Upplýsingarnar verða afritaðar beint úr tölvupósti frá frambjóðenda, svo frambjóðandi ber alfarið ábyrgð á eigin rithætti.

Tengiliður hvers nemendafélags mun sjá um að boða til framboðsfundar í hverju nemendafélagi fyrir sig og fyrir Stúdentafélag Háskólans í Reykjavík. Framboðsfundir verða í upphafi kosningaviku og verða auglýstir síðar.

Reglur um framboðskynningar

  • Frambjóðendum er frjálst að kynna framboð sín eftir að öll framboð hafa verið kynnt og svo fremi sem kosningabaráttan er háð með heiðarlegum hætti og af virðingu fyrir mótframbjóðendum
  • Aðeins má auglýsa framboð með plakötum á meðan að kosningu stendur, aðeins má nota fyrirfram skilgreind auglýsingasvæði, sbr. skólareglur. Frambjóðendum ber að virða umgengnisreglur skólans, hvort sem það er innan veggja skólans eða á skólalóð.
  • Óheimilt er að raska starfsemi skólans nema með leyfi skólayfirvalda.
  • Óheimilt er að stunda beinar framboðskynningar utan skólalóðar HR, s.s. í vísindaferðum. Þó er heimilt að halda úti kosningavefsíðu, en frambjóðendur skulu há kosningabaráttu sína með heiðarlegum hætti og af virðingu fyrir mótframbjóðendum á kosningasíðum sínum. Auglýsingar og framboðskynningar þurfa að vera innan siðferðislegra marka og eiga ekki að áreita nemendur að óþörfu.
  • Leita þarf samþykkis hjá Ýr Gunnlaugsdóttur (yrg@ru.is) fyrir veitingum á framboðskynningum.
  • Frambjóðendum ber að fjarlægja allar auglýsingar og plaköt í húsnæði skólans að kosningum loknum.
  • Frambjóðendur þurfa að öðru leyti að fylgja lögum þess nemendafélags sem viðkomandi frambjóðandi býður sig fram í.
  • Lög um kosningar má finna undir lögum Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík á http://sfhr.is/log-studentafelagsins

Kjörstjórn er skipuð eftirfarandi aðilum:

  • Indíana Rós Ægisdóttir (Mentes), formaður kjörstjórnar, indiana13@ru.is
  • Auðunn Örn Gylfason (Atlas), audunno14@ru.is
  • Fanney Hrund Jónasdóttir (SFHR), fanneyj13@ru.is
  • Janus Þór Kristjansson (Tvíund), janus14@ru.is
  • Kristian Solomon (Markaðsráð), kristian15@ru.is
  • Viðar Pétur Styrkársson (Pragma), vidar14@ru.is
  •  Tinna Dögg Guðlaugsdóttir (Lögrétta), tinnag07@ru.is

Fulltrúi hvers nemendafélags sér um úrvinnslu framboðstilkynninga fyrir sitt nemendafélag. Framboðstilkynningum er svarað þegar að gengið hefur verið úr skugga um kjörgengi frambjóðanda.

Lýsingar á embættum

Hér á eftir koma lýsingar á embættum innan SFHR og aðildarfélaga.

Embætti innan Stúdentafélags HR (SFHR)

Kjörgengisskilyrði
Kjörgengir eru allir nemendur HR sem hyggja á áframhaldandi nám við HR. Allir nemendur Háskólans í Reykjavík hafa kosningarétt

Lýsing á embættum
Stjórn Stúdentafélags HR skal kosin listakosningu. Í listakosningu felst að ekki er hægt að skila inn framboði í eitt embætti heldur þurfa þrír til fimm aðilar að taka sig saman um að bjóða fram til allra embætta og mynda þannig lista sem stendur kjósendum til boða að styðja. Embættin eru formaður, varaformaður og gjaldkeri auk eins eða tveggja meðstjórnenda ef listi kýs að vera fleiri en þrír aðilar.
Innan stjórnar eru þessi embætti:

Formaður SFHR:
Formaður Stúdentafélagsins, í hans fjarveru varaformaður, stjórnar fundum og kemur fram fyrir hönd Stúdentafélagsins í samskiptum við aðila innan sem utan Háskólans í Reykjavík. Formaður Stúdentafélagsins hefur yfirumsjón með framkvæmdum á vegum félagsins og ber hann endanlega ábyrgð á málefnum þess. Formaður situr í Háskólaráði og framkvæmdastjórn HR. Formaður hefur prókúru og ritar firma félagsins.

Varaformaður SFHR:
Varaformaður skal rita fundargerðir stjórnarfunda og sjá til þess að fundargerðir séu samþykktar af stjórn Stúdentafélagsins. Varaformaður situr í Námsráði. Varaformaður ber ábyrgð á og hefur yfirumsjón með öllum útgáfumálum félagsins (þó ekki útgáfu Háskólablaðsins), umsjón og svörun aðsendra bréfa og heimasíðu félagsins. Varaformaður er tengiliður SFHR við lánasjóðsfulltrúa skólans.

Gjaldkeri SFHR:
Gjaldkeri hefur einn umsjón með fjárráðum félagsins. Gjaldkeri útbýr fjárhagsáætlun Stúdentafélagsins og leggur hana fyrir stjórn til samþykktar fyrir lok septembermánaðar. Ársuppgjör skal vera aðgengilegt félagsmönnum þremur dögum fyrir aðalfund hið minnsta. Gjaldkeri hefur prókúru.

Embætti í ritstjórn Háskólablaðsins

Kjörgengisskilyrði
Kjörgengir eru allir nemendur HR sem hyggja á áframhaldandi nám við HR. Allir nemendur Háskólans í Reykjavík hafa kosningarétt. Ritstjórn Háskólablaðsins er kosin einstaklingskosningu.

Hlutverk ritstjórnar er að gefa út Háskólablaðið,  a.m.k. einu sinni á skólaári. Ritstjórn skal standa skil á starfsemi ritstjórnar á skólaárinu áður en kennsla á haustönn hefst.

Lýsing á embættum

Ritstjóri:
Hefur yfirumsjón með efnistökum Háskólablaðsins og ber ábyrgð á öllu útgefnu efni á vegum blaðsins. Ritstjóri stjórnar einnig ritstjórnarfundum og skal í samráði við fjármálastjóra ákveða fjölda útgáfa, útgáfudag og umfang blaðs á því skólaári sem hann stýrir blaðinu. Ritstjóri hefur prókúru og ritar firma félagsins.

Fjármálastjóri:
Hefur einn umsjón með fjárráðum félagsins og útbýr fjárhagsáætlun fyrir Háskólablaðsins. Hann hefur yfirumsjón á verðlagningu auglýsinga á vegum Háskólablaðsins eða öðrum atburðum/varningi sem Háskólablaðið hefur til sölu. Ársuppgjöri Háskólablaðsins skal skilað til gjaldkera Stúdentafélagsins þremur dögum fyrir aðalfund hið minnsta. Fjármálastjóri hefur prókúfu.

Markaðsstjóri:
Sér um markaðssetningu blaðsins og ákvarðar í sameiningu með fjármálastjóra dreifingu, kynningu og aðra utanaðkomandi umfjöllun um Háskólablaðið.

Auglýsingastjóri:
Hefur umsjón með auglýsingasölu í Háskólablaðið og annað útgefið efni á vegum blaðsins, s.s. á heimasíðu og kynningarefni.

Listrænn stjórnandi:
Hefur umsjón á útliti blaðsins og öðru útgefnu efni á vegum blaðsins, í samráði við ritstjóra. Þar er átt við útlit myndatakna, umbrot, hönnun o.s.frv.

Embætti í Atlas

Kjörgengisskilyrði
Kjörgengir eru allir nemendur í íþróttafræði í HR sem hyggja á áframhaldandi nám við íþróttafræði í HR. Allir nemendur íþróttafræðinnar Háskólans í Reykjavík hafa kosningarétt. Stjórn Atlas skal kosin einstaklingskosningu.

Lýsing á embættum

Formaður:
Formaður Atlas ritar firma félagsins. Formaður hefur prókúru félagsins. Formaður kemur fram fyrir hönd Atlas innan sem utan Háskólans í Reykjavík. Formaður stjórnar fundum stjórnar og situr í framkvæmdastjórn SFHR.

Varaformaður:
Varaformaður kemur fram í forföllum formanns, ásamt því að sinna ýmsum aðkallandi verkefnum.

Gjaldkeri:
Ber ábyrgð á bókhaldi félagsins ásamt því sem hann undirbýr fjárhagsáætlun félagsins eitt ár fram í tímann og leggur hana fyrir stjórn til samþykktar fyrir septemberlok ár hvert. Hann skal einnig leggja fyrir stjórnina ársreikning á aðalfundi félagsins. Gjaldkeri hefur prókúru félagsins.

Ritari:
Ritari ritar fundargerðir stjórnarfunda.  Hann hefur umsjón með heimasíðu félagsins, www.atlas-hr.is svo og umsjá aðsendra bréfa. Ritari skal vera tengiliður við önnur félög í kennslufræði og lýðheilsu, innlend sem erlend. Í fjarveru hans ritar meðstjórnandi fundargerðir stjórnarfunda.

Skemmtanastjóri:
Skipuleggur vísindaferðir og uppákomur af ýmsu tagi.  Skemmtanastjóri verður í nánu sambandi við önnur félög og heldur samkomur í samstarfi við þau.

Embætti innan Markaðsráðs:

Kjörgengisskilyrði
Greiðandi félagar í Markaðsráði hafa kjörgengi. Kosningarétt hafa allir viðskiptafræðinemar við HR. Stjórn Markaðsráðs skal kosin einstaklingskosningu.

Lýsing á embættum

Formaður
Formaður hefur yfirumsjón með því sem gert er í félaginu og er öllum stjórnarmönnum innan handar. Hann kemur fram fyrir hönd stjórnar, sér um að boða og  stjórna fundum og búa til fundardagskrá. Formaður ritar firma félagsins og hefur prókúru þess. Formaður ber ábyrgð á því að lögum og reglum félagsins sé framfylgt. Formaður situr í framkvæmdastjórn SFHR.

Upplýsingafulltrúi
Upplýsingafulltrúi Markaðsráðs er ritari og varaformaður félagsins og kemur fram fyrir hönd félagsins í forföllum formanns. Upplýsingafulltrúi ritar fundargerðir og sér um svörun aðsendra bréfa. Upplýsingafulltrúi er ábyrgðarmaður heimasíðu Markaðsráðs,www.markadsrad.is, og sér um að halda uppi upplýsingaveitu til nemenda um atburði félagsins.

Gjaldkeri
Hlutverk gjaldkera Markaðsráðs er að halda utan um bókhald Markaðsráðs. Gjaldkeri sér um að halda utan um reikninga og viðskipti félagsins. Í upphafi annar þarf að setja fram fjárhagsáætlun fyrir skólaárið. Hann skal einnig leggja fyrir stjórnina áramótauppgjör eigi síðar en 31. janúar ár hvert. Gjaldkeri situr í stjórn Markaðsráðs.

Nemendaskólafulltrúi
Nemendaskóli Markaðsráðs sér um að haldin séu hagnýt og skemmtileg námskeið sem nýtast geta nemendum viðskiptadeildar í námi og starfi. Einnig heldur Nemendaskólinn utan um glósubankann. Nemendaskólafulltrúi er í stjórn Markaðsráðs. Getur tilnefnt aðila sem aðstoðarmann að fengnu samþykki stjórnar Markaðsráðs.

Málþingsfulltrúi
Ber ábyrgð á Málþinginu fyrir hönd Markaðsráðs. Situr í stjórn Markaðsráðs. Getur tilnefnt aðila sem aðstoðarmann að fengnu samþykki stjórnar Markaðsráðs.

Skemmtanastjóri
Skemmtanastjóri sér um allar vísindaferðir, uppákomur, samkomur og allt félagslíf í kringum viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík. Skemmtanastjóri situr einnig í stjórn Markaðsráðs. Getur tilnefnt allt að tvo aðila sem aðstoðarmenn að fengnu samþykki stjórnar Markaðsráðs.

Embætti innan Mentes:

Kjörgengisskilyrði
Kosningarétt hafa allir félagsmenn. Kjörgengi hafa þeir félagsmenn sem greitt hafa félagsgjöld. Stjórn Mentes skal kosin einstaklingskosningu.

Lýsing á embættum

Formaður Mentes:
Formaður kemur fram fyrir hönd Mentes innan sem utan Háskólans í Reykjavík og er tengiliður Mentes við önnur félög sálfræðinema, innlend sem erlend. Formaður sér einnig um að boða til og stýra fundum stjórnar, ritar firma félagsins og hefur, ásamt gjaldkera, prófkúru félagsins. Formaður situr í framkvæmdastjórn SFHR.

Varaformaður:
Varaformaður sinnir störfum formanns í hans fjarveru og ritar fundargerðir stjórnarfunda í fjarveru ritara. Varaformaður, ásamt ritara, hefur yfirumsjón með Námsaðstoð Mentes sem felst í námskeiðum, prófbúðum og annarri kennslu.

Gjaldkeri Mentes:
Gjaldkeri ber ábyrgð á bókhaldi félagsins og hefur, ásamt formanni, prókúru félagsins. Gjaldkeri sér einnig um undirbúning fjárhagsáætlana, bæði fyrir starfsárið sem heild sem og einstaka viðburði.

Ritari Mentes:
Ritari hefur umsjón með heimasíðu og fésbókarsíðu félagsins sem og umsjá aðsendra bréfa og tölvupósta. Ritari sér um að rita fundargerðir stjórnarfunda. Ritari, ásamt varaformanni, hefur yfirumsjón með Námsaðstoð Mentes sem felst í námskeiðum, prófbúðum og annarri kennslu.

Skemmtanastjóri Mentes:
Skemmtanastjórn vinnur í samvinnu við skemmtinefnd að skipulagningu vísindaferða og annarra viðburða. Skemmtanastjóri er einnig í samstarfi við önnur nemendafélög og sér um skipulagningu sameiginlegra viðburða.

Embætti í Pragma

Kjörgengisskilyrði
Kosið er einstaklingskosningu, í stjórn og nefndir Pragma. Kosningarétt hafa allir félagsmenn. Kjörgengi hafa þeir félagsmenn sem greitt hafa félagsgjöld.

Lýsing á embættum

Formaður
Formaður Pragma ritar firma félagsins og hefur prófkúru. Formaður situr í framkvæmdastjórn SFHR.

Varaformaður/ritari
araformaður hefur umsjón með facebook síðu og heimasíðu félagsins ásamt umsjá aðsendra bréfa. Ritari skal vera tengiliður Pragma við önnur félög verkfræðinema, innlend sem erlend.

Gjaldkeri
Gjaldkeri ber ábyrgð á bókhaldi félagsins. Gjaldkeri undirbýr fjárhagsáætlun félagsins eitt ár fram í tímann og leggur hana fyrir stjórn til samþykktar fyrir septemberlok ár hvert. Hann skal einnig leggja fyrir stjórnina fjárhagsstöðu félags eigi síðar en 31. janúar ár hvert. Verði gjaldkera ljóst að tap sé á rekstri félagsins skal boða til fundar innan stjórnar hið fyrsta og tekin sameiginleg ákvörðun um aðgerðir.

Skemmtanastjóri
Skemmtanastjóri hefur yfirumsjón skemmtanalífi Pragma, hann skal skipuleggja vísindaferðir og aðra viðburði sem tengjast skemmtanalífinu. Skemmtanastjóri hefur yfirumsjón með skemmtinefnd Pragma og skal einnig vera tengiliður skemmtanastjóra hinna félaga innan SFHR.

Upplýsingastjóri
Upplýsingastjóri hefur yfirumsjón með upplýsinganefnd og skal vinna að því að fá aðila úr atvinnulífinu til að standa fyrir fyrirlestrum og námskeiðum er tengjast þeim verkræðigreinum sem kenndar eru við Háskólann í Reykjavík. Upplýsingastjóri og upplýsinganefnd standa fyrir prófbúðum Pragma.

Technisstjóri
Technisstjóri er fulltrúi tæknifræðinema í stjórn Pragma. Hann ber ábyrgð á því að tryggja tæknifræðinemum sömu réttindum og verkfræðinemum innan Pragma, auk þess sem hann skipuleggur sérstaka viðburði fyrir tæknifræðinema.

Fulltrúi í upplýsinganefnd – 2 stöður
Fulltrúar í upplýsinganefnd skulu vera upplýsingastjóra innan handar og hjálpa til við þau verkefni sem honum falla í hendur.

Fulltrúi í skemmtinefnd – 3 stöður.
Fulltrúar í skemmtinefnd skulu vera skemmtanastjóra innan handar og hjálpa til við þau verkefni sem honum falla í hendur.

Fulltrúi í technisnefnd – 2 stöður
Fulltrúar í technisnefnd skulu vera technisstjóra innan handar og hjálpa til við þau verkefni sem honum falla í hendur. Technisnefnd skal vera skipuð nemendum sem stunda nám í tæknifræði.

Embætti í Tvíund

Kjörgengisskilyrði
Allir félagsmenn hafa kosningarétt og eru kjörgengnir. Kosið er einstaklingskosningu í embætti stjórnar og skemmtinefnd.

Lýsing á embættum

Formaður Tvíundar:
Formaður kemur fram fyrir hönd félagsins innan sem utan Háskólans í Reykjavík. Formaður er tengiliður Tvíundar við Tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík. Formaður stjórnar fundum stjórnar og situr í framkvæmdastjórn SFHR.

Gjaldkeri Tvíundar:
Gjaldkeri ber ábyrgð á bókhaldi félagsins og hefur prókúru á reikninga félagsins. Gjaldkeri undirbýr fjárhagsáætlun félagsins eitt ár fram í tímann og leggur hana fyrir stjórn til samþykktar fyrir septemberlok ár hvert. Hann skal einnig leggja fyrir stjórnina áramótauppgjör eigi síðar en fyrir upphaf vorannar ár hvert.

Upplýsingafulltrúi Tvíundar:
Upplýsingafulltrúi ritar fundargerðir stjórnarfunda. Upplýsingafulltrúi hefur umsjón með heimasíðu félagsins og hefur umsjá með aðsendum bréfum. Upplýsingafulltrúi skal vera tengiliður Tvíundar við önnur félög tölvunarfræðistúdenta, innlend sem erlend. Upplýsingafulltrúi sér til þess að öll gögn sem snúa að störfum stjórnarinnar séu aðgengileg öllum stjórnarmeðlimum og sér til þess að næsta stjórn fái aðgang að áðurnefndum gögnum. Upplýsingafulltrúi hefur yfirumsjón með Tvíund Production. Upplýsingafulltrúi er jafnframt varaformaður félagsins.

Hagsmunafulltrúi Tvíundar:
Hlutverk hagsmunafulltrúa er að útvega og halda utan um þau námskeið og fyrirlestra sem haldnir eru á vegum félagsins. Hagsmunafulltrúi skal hafa yfirumsjón með upprifjunarnámskeiðum fyrir lokapróf á hverri önn. Auk þess skal hann vera tengiliður Tvíundar við tölvunarfræðideildina fyrir þau námskeið sem tölvunarfræðideildin stendur fyrir. Hann hefur yfirumsjón með og er tengiliður við hverja þá klúbba sem eru á vegum félagsins.

Skemmtanastjóri:
Skemmtanastjóri hefur yfirumsjón með viðburðum á vegum Tvíundar. Hann hefur einnig yfirumsjón með skemmtinefnd Tvíundar og er formaður hennar. Skemmtanastjóri er sömuleiðis tengiliður félagsins við skemmtanastjóra annarra nemendafélaga innan Háskólans í Reykjavík.

Fulltrúi í skemmtinefnd – 2 stöður
Aðstoðar Skemmtanastjóra. Skemmtinefnd hefur yfirumsjón með mannfögnuðum á vegum Tvíundar. Skemmtinefnd Tvíundar skal skipuð þremur aðilum, skemmtanastjóra og tveimur fulltrúum. Kosinn er skemmtanastjóri og í embætti fulltrúa skemmtinefndar. Þeir tveir aðilar sem fá flest atkvæði í embætti fulltrúa skemmtinefndar hljóta kosningu.

Bestu kveðjur,

Kjörstjórn SFHR