Ný stjórn SFHR

Elísabet Erlendsdóttir tók nýlega við embætti formanns Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík (SFHR). Elísabet er á öðru ári í BSc-námi í heilbrigðisverkfræði við tækni- og verkfræðideild HR. Formaður félagsins er kosinn árlega meðal nemenda háskólans en SFHR er hagsmunafélag stúdenta við Háskólann í Reykjavík og ber því að standa vörð um hagsmuni félagsmanna sinna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá SFHR.

Þar kemur fram að starfsemi SFHR gangi að miklu leyti út á að veita skólanum aðhald hvað varði gæði kennslunnar og aðstöðu nemenda til náms. Formaður SFHR situr jafnframt fundi framkvæmdastjórnar HR. Elísabet segir nýju stjórn halda áfram góðu starfi fráfarandi stjórnar.

„Sú stjórn stóð sig mjög vel að mínu mati. Við erum að mörgu leyti heppin hér í HR þar sem háskólinn stendur sig vel hvað varðar gæði kennslu, nútímalega kennsluhætti og aðgang nemenda að starfsfólki. Það eru þó alltaf ákveðin hagsmunamál sem þarf að reka áfram, til dæmis varðandi námslán og húsnæðismál. Svo höldum við áfram að efla hin nýstofnuðu landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS), en þar er SFHR aðildarfélag. Almennt séð viljum við svo koma hlutverki félagsins betur á framfæri við nemendurna sjálfa og vera sýnilegri.“

Ásamt Elísabetu var Erla Harðardóttir kjörin varaformaður, Arnar Ingi Halldórsson fjármálastjóri, Fanney Hrund Jónasdóttir upplýsingafulltrúi og Tinna Dögg Guðlaugsdóttir hagsmunafulltrúi.


Stjorn_SFHR

 

 

Categories: Fréttir