MPM-nám við HR hlýtur vottun Breska verkefnastjórnunarfélagsins
MPM-nám í verkefnastjórnun við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík hlaut nýverið formlega vottun frá Breska verkefnastjórnunarfélaginu, APM.
Í umsögn kemur fram að MPM-námið við HR sé dæmi um bestu aðferðir (e. best practice) á heimsvísu í meistaranámi í verkefnastjórnun. Vottunin er mikil viðurkenning fyrir MPM-námið sem er þar með komið í flokk um 30 námsbrauta við háskóla sem hafa hlotið slíka vottun fyrir nám á sviði verkefnastjórnunar. Tilgangur APM með vottuninni er að leiðbeina nemendum og fagfólki um allan heim með því að benda á bestu námsleiðir sem í boði eru á sviði verkefnastjórnunar.
Vinna við undirbúning vottunar MPM-námsins við HR hófst vorið 2015 og ítarlegri skýrslu um námið var skilað til úttektarnefndar APM í júní síðastliðnum. Liður í úttektinni var heimsókn úttektarmanns APM til Íslands í haust þar sem hann fylgdist með kennslu, ræddi við forsvarsmenn MPM-námsins, núverandi og útskrifaða nemendur, hagsmunaaðila í atvinnulífinu og fleiri. Vottun námsins frá APM er mikilvægur liður í þróun MPM-námsins í takti við þarfir atvinnulífsins og sívaxandi notkun aðferða verkefnastjórnunar hjá fyrirtækjum og stofnunum.
MPM-námið við tækni- og verkfræðideild HR er meistaranám í verkefnastjórnun, með áherslu á stjórnun verkefnadrifinna fyrirtækja og stofnana. Í náminu er lögð áhersla á þjálfun í að móta stefnu og taka ákvarðanir og hrinda þeim í framkvæmd með markvissum hætti. Ennfremur að vinna með fólki, stýra teymum og takast á við vandamál í mannlegum samskiptum. Verkefnastjórnun hefur sótt mjög á sem alhliða stjórnunaraðferð fyrir fyrirtæki sem starfa í síbreytilegu umhverfi.
Um 300 manns hafa lokið MPM-námi á Íslandi, sem hefur verið í boði síðan árið 2005. Fólk sem sækir MPM-námið er með fjölbreytta menntun og reynslu að baki og hefur m.a. komið úr hugbúnaðargerð, verkfræði, náttúruvísindum og félagsvísindum. Fólk með MPM-gráðu starfar hjá fjölbreyttri flóru fyrirtækja og stofnana á flestum sviðum þjóðfélagsins.
Breska verkefnastjórnunarfélagið APM var stofnað árið 1972 og er í dag stærsta verkefnastjórnunarfélag í Evrópu með tugþúsundir félagsmanna. APM starfar innan IPMA – Alþjóðasamtaka verkefnastjórnunarfélaga og er stærsta aðildarfélag samtakanna.