Jafnréttisfélag stofnað í HR
Stúdentafélag Háskólans í Reykjavík stofnaði formlega Jafnréttisfélag Háskólans í Reykjavík þann 5.október. Félagið er stofnað í upphafi Jafnréttisdaga sem haldnir eru háskólum landsins 5.-16.október. Í tilefni þeirra bauð félagið upp á fjölbreytta dagskrá í Háskólanum í Reykjavík, sem hófst með ljósgjörningi og tónleikum í hádeginu. Í vikunni sem leið var boðið upp stutta hádegisfyrirlestra um jafnréttismál.
Elísabet Erlendsdóttir, formaður Stúdentafélags HR, sagði við stofnunina: „Undanfarið hefur verið mikil gróska í jafnréttismálum á Íslandi og augljóst er að okkar kynslóð vill taka þátt í umræðunni. Því er tilvalið fyrir okkar ört stækkandi háskólasamfélag að sýna vilja í verki þegar kemur að jafnréttismálum og fyrsta skrefið var að stofna Jafnréttisfélagið.“
Í tilkynningu frá félaginu segir að markmið Jafnréttisfélags Háskólans í Reykjavík sé að auka umræðu um jafnréttismál í víðum skilningi, jafnt innan veggja háskólans sem utan. Meðal þeirra málefna sem félagið telur mikilvægt að auka umræðu um eru málefni kvenna, fólks af erlendum uppruna, hælisleitenda, samkynhneigðra, transfólks, fatlaðra og allra annarra sem verða fyrir fordómum eða mismunun í samfélaginu.
Félagið telur að mikið verk sé enn óunnið þegar kemur að því að auka skilning á málefnum minnihlutahópa og ætla meðlimir félagsins að leggja sig fram við að koma á jákvæðum breytingum og umræðu um jafnréttismál og vinna gegn hvers kyns fordómum og fáfræði.
Stjórn Jafnréttisfélags Háskólans í Reykjavík skipa Maríanna Ósk Hölludóttir, formaður, 2. árs nemi í frumgreinadeild; Helgi Bergmann, 4. árs nemi í lögfræði; Sandra Heimisdóttir, 2. árs nemi í lögfræði; Carmen González de Peláez, mastersnemi í viðskiptafræði; Kristinn Þorri Þrastarson, 2. árs nemi í tölvunarfræði.