Velferðarnefnd Alþingis
Nefndarsvið skrifstofu Alþingis
Austurstræti 8-10, 101 Reykjavík

13. janúar 2016 

Efni: Umsögn Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík um frumvarp til laga um húsnæðisbætur (heildarlög), 145. löggjafarþing 2015-2016. Þingskjal nr. 565 – 407. mál

Stúdentafélag Háskólans í Reykjavík, hér eftir SFHR, telur óásættanlegt að nemendum á háskólastigi sé mismunað eftir því hvernig búsetuformi þeirra er háttað. SFHR lýsir yfir vonbrigðum að í hinu nýja frumvarpi sé ekki gert ráð fyrir því að þeir námsmenn, sem neyðast til þess að búa á almennum leigumarkaði, geti þegið húsnæðisbætur, sbr. 11.gr. frumvarpsins.

Raunveruleikinn er sá að mjög fáir háskólanemar geti nýtt sér listuð úrræði sem eru kölluð „sambýli námsmanna á heimavistum eða námsgörðum sem tengjast viðurkenndum menntastofnunum innan hins almenna menntakerfis á Íslandi. “, í c-lið 11.gr. frumvarpsins. Það er ekki nægilegt framboð af húsnæði á því sem telst til stúdentagarða og verða því margir námsmenn að vera á hinum almenna leigumarkaði af illri nauðsyn. Þetta á sér í lagi við um þá námsmenn sem sækja sér menntun á háskólastigi annars staðar á landinu en í sinni heimabyggð, einfaldlega því menntunin er ekki í boði í þeirra heimabyggð. SFHR telur það óviðunandi að frumvarpið gefi til kynna slíka mismunun á tækifærum námsmanna vegna heimabyggðar.

Það er því nauðsynlegt að undanþága c-liðar 11.gr. frumvarpsins einskorðist ekki við heimavistir eða það sem telst til stúdentagarða.

SFHR leggur til eftirfarandi viðbót við frumvarpið til þess að jafnræði sé tryggt:

11.gr Undanþága frá skilyrðum um íbúðarhúsnæði

  1. sambýli námsmanna á heimavistum eða námsgörðum sem tengjast viðurkenndum menntastofnunum innan hins almenna menntakerfis á Íslandi.
  2. sambýli námsmanna í leiguhúsnæði á almennum markaði þegar liggur fyrir þinglýstur leigusamningur um húsnæðið og staðfesting á skólavist.

Virðingafyllst,

f.h. Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík

Elísabet Erlendsdóttir, formaður SFHR